Ungversk og pólsk stjórnvöld hafa lengi sætt gagngrýni fyrir að grafa undan sjálfstæði dómstóla og fjölmiðla. Af þeim sökum hyggst Evrópusambandið skilyrða aðgang að sameiginlegum sjóðum þess við að ríkin virtu grundvallaratriði lýðræðisins. Evrópudómstóllinn á eftir að veita umsögn um það en bæði ríki andmæla skilyrðinu.
Vera Jourova, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir að hún hafi nú til sérstakrar skoðunar hvort að nýju lögin í Ungverjalandi stangist á við Evrópulög.
„Tjáningarfrelsið verður að vernda og ekki ætti að mismuna gegn neinum á grundvelli kynhneigðar,“ sagði Jourova eftir fund ráðherra þar sem málið var rætt í dag, að sögn AP-fréttastofunnar.
Með lögunum varð ólöglegt að sýna börnum undir átján ára aldri efni sem sýnir eða ýtir undir samkynhneigð eða kynleiðréttingu. Ungversk stjórnvöld halda því fram að lögunum sé ætlað að vernda börn með því að tryggja að foreldrar þeirra fræði þau um kynhneigð þar til þau ná átján ára aldri.
Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemborgar, segir lögin hins vegar ekki endurspegla nein gildi sem Evrópusambandið vill verja.
„Fólk á rétt á því að lifa eins og það vill, við erum ekki lengur á miðöldum,“ segir hann.
Taka átök fram yfir viðræður
Framkvæmdastjórnin ætlar að gefa út skýrslu um stöðu réttarríkisins í Evrópu í næsta mánuði.
Jourova lýsti áhyggjum af hnignun lýðræðis í Póllandi og að þarlend stjórnvöld hefðu lítinn áhuga sýnt á að samsvara sig þeim gildum sem koma fram í sáttmála Evrópusambandsins.
„Við sjáum vaxandi áhrif framkvæmdavaldsins á dómsvaldið og í stað viðræðuvilja sjáum við frekari skref í átt að átökum,“ sagði hún.
Sagði hún sambandið tilbúið að beita þeim ráðum sem það hefði til þess að fá Pólland og Unverjaland til þess að virða lýðræðisleg grundvallaratriði þess.