Bruce Aylward, háttsettur embættismaður hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, segir að 90 milljónum bóluefnaskammta hafi nú verið komið til samtals 131 ríkis í gegnum COVAX, samstarfi ríkja sem komið var á til að tryggja öllum þjóðum aðgang að bóluefni við COVID-19.
Aylward segir þetta þó á engan hátt nóg til að tryggja þjóðum næga vernd gegn veiru sem enn sé í mikilli útbreiðslu. Vöntunin á bóluefni komi á sama tíma og fjöldi Afríkuríkja glímir við þriðju bylgju faraldursins.
Í frétt BBC segir að Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, hafi hvatt auðugari ríki heims til að hætta að hamstra bóluefni og bendir hann á að einungis 40 milljónir skammta hafi verið gefnir til íbúa í Afríku, eða um tvö prósent íbúa álfunnar.
Ramaphosa segir að til að bregðast við ástandinu vinni suður-afrísk stjórnvöld nú með Covax að því að koma upp framleiðslustöð fyrir bóluefni í Suður-Afríku.