Fótbolti

Neymar fer ekki til Tókýó - Dani Alves getur bætt 43. titlinum í safnið

Valur Páll Eiríksson skrifar
Alves verður fyrirliði þeirra brasilísku á Ólympíuleikunum í Tókýó.
Alves verður fyrirliði þeirra brasilísku á Ólympíuleikunum í Tókýó. Getty Images/Michael Reaves

Brasilíski landsliðshópurinn í fóbolta fyrir komandi Ólympíuleika var tilkynntur í dag. 18 leikmenn manna hópinn, þar af þrír sem eru eldri en 23 ára. 

Enginn þeirra leikmanna sem er í landsliðshópi Brasilíu sem tekur nú þátt í Suður-Ameríkukeppninni, Copa América, fer með til Japan í ágúst. Neymar, Roberto Firmino, Casemiro og fleiri góðir láta því yfirstandandi keppni í Brasilíu sér duga.

Þeir þrír sem eru yfir 23 ára aldri í hópi þeirra brasilísku eru Santos, markvörður Atlético Paranense, Diego Carlos, miðvörður Sevilla, og goðsögnin Daniel Alves, sem leikur með São Paulo.

Alves er 38 ára gamall og er sigursælasti fótboltamaður sögunnar. Hann hefur unnið 38 titla með félagsliðum, þar af 24 með Barcelona á Spáni, og fjóra með brasilíska landsliðinu; Copa América 2007 og 2019 og Álfukeppnina 2009 og 2013.

Alves sækist eftir 43. titlinum seinna í sumar þar sem hann mun leiða brasilíska liðið sem fyrirliði á mótinu. Þónokkrir leikmenn í Evrópuboltanum má finna í brasilíska hópnum fyrir mótið. Þar má nefna Gabriel Magalhães (Arsenal), Douglas Luiz (Aston Villa), Bruno Guimarães (Lyon), Antony (Ajax), Malcom (Zenit), Matheus Cunha (Hertha Berlín), og Paulinho (Bayer Leverkusen).

Stærsta nafnið sem hvorki er í hópnum í Suður-Ameríkukeppninni né á meðal Ólympíufara er eflaust Phillippe Coutinho, leikmaður Barcelona, sem hefur verið á snarpri niðurleið eftir brottför sína frá Liverpool á Englandi árið 2018. Þá var ekki heldur pláss fyrir hinn tvítuga Rodrygo, leikmann Real Madrid, í Ólympíuhópnum en liðsfélagi hans Vinicíus Júnior er með landsliðinu á Copa América.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×