Afar hægt hefur gengið að bólusetja gegn kórónuveirunni í Afríku. Matshidiso Moetl, svæðisstjóri WHO í Afríku, segir að 225 milljónir skammta af bóluefni þurfi til viðbótar svo að Afríkulönd nái að 10% markmiðinu.
„Nú þegar bóluefnabirgðir og sendingar eru að verða á þrotum er bólusetningarhlutfall í álfunni fyrir fyrsta skammt fast í 2% og um 1% í Afríku sunnan Saharaeyðimerkurinnar,“ sagði Moetl á vikulegum upplýsingafundi, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Bandaríkjastjórn hefur sagst ætla að kaupa hálfan milljarða skammta af bóluefni Pfizer til að gefa 90 þróunarríkjum. Moetl sagði það mikilvægt skref til að auka framboð á bóluefni í Afríku.
Fjórtán Afríkuríki stefna nú hraðbyri inn í þriðju bylgju faraldursins þar. Á öðrum upplýsingafundi WHO í dag kom fram að indverska afbrigðið svonefnda væri að ná fótfestu í álfunni. Fylgst væri grannt með því hvort að samband sé á milli afbrigðisins og þriðju bylgjunnar.