Útslitin voru á engan hátt óvænt en Bandaríkin og Evrópusambandið hafa, auk fjölda annarra, gagnrýnt framkvæmd kosninganna og sagt þær hvorki hafa verið frjálsar né sanngjarnar.
Um verður að ræða fjórða kjörtímabil al-Assad, en það var forseti sýrlenska þingsins sem greindi frá úrslitunum í beinni sjónvarpsútsendingu í gærkvöldi. Þingforetinn, Hammoud Sabbagh, greindi jafnframt frá því að kjörsóknin hafi verið tæplega 79 prósent.
Á opinberri Twitter-síðu Sýrlandsstjórnar sagði: „Sýrlendingar hafa sagt sitt. Bashar al-Assad vinnur sýrlensku forsetakosningarnar eftir að hafa hlotið 95,1 prósent atkvæða kjósenda, innan sem utan landamæra Sýrlands.“
Stríðshrjáð ríki
Assad hefur fullyrt að kosningarnar sýni fram á að Sýrland starfi enn venjulega þrátt fyrir stríðið og deilurnar sem hafa nú staðið í um áratug og leitt til dauða hundruð þúsunda og neytt um ellefu milljónir Sýrlendinga, hálfa þjóðina, á flótta.
Í kosningunum var einungis hægt að kjósa á þeim svæðum í landinu sem eru á valdi Sýrlandsstjórnar. Mikill fjöldi flóttafólks, sem hafa flúið átökin í landinu á síðustu árum, var ekki gert mögulegt að kjósa.
Einungis voru þrír frambjóðendur á kjörseðlinum, en áður höfðu yfirvöld í landinu hafnað framboðum um fjörutíu manna.
Bashar as-Assad tók við embætti forseta Sýrlands árið 2000. Hann tók við embættinu af Hafez al-Assad, föður sínum, sem stýrði landinu í 29 ár, frá 1971 til 2000.