Körfubolti

NBA dagsins: Stigahæstur á leiktíðinni og næstelstur til þess á eftir Jordan

Sindri Sverrisson skrifar
Stephen Curry átti magnað endurkomutímabil í vetur.
Stephen Curry átti magnað endurkomutímabil í vetur. AP/Jeff Chiu

Hinn 33 ára gamli Stephen Curry skoraði 46 stig í síðasta leik Golden State Warriors í NBA-deildinni á þessari leiktíð, áður en umspil og úrslitakeppni tekur nú við.

Curry skoraði stigin í 113-101 sigri á Memphis Grizzlies og tryggði sér þar með stigameistaratitilinn á leiktíðinni. Hann skoraði að meðaltali 32 stig í leik í vetur og endaði fyrir ofan Bradley Beal sem skoraði 31,3 stig að meðaltali fyrir Washington Wizards.

Þetta er í annað sinn sem Curry endar stigahæstur en James Harden hefur orðið stigahæstur síðustu þrjár leiktíðir. Curry afrekaði það síðast veturinn 2015-16. Aðeins Michael Jordan hefur náð að verða stigahæstur á leiktíð í NBA-deildinni eldri en Curry. Jordan var 35 ára þegar hann varð stigahæstur tímabilið 1997-98.

Í NBA dagsins má sjá enn eina frábæra frammistöðu Currys sem hefur þurft að draga vagninn fyrir Golden State en liðið þarf að gera sér að góðu að fara í umspil til að komast í úrslitakeppnina. Einnig eru þar svipmyndir úr sigrum LA Lakers og New York Knicks.

Klippa: NBA dagsins 17. maí

Í umspilinu mætir Golden State meisturum Lakers og mun sigurliðið mæta Phoenix Suns í 8-liða úrslitum vesturdeildarinnar. Tapliðið fær annan möguleika á að tryggja sig inn í úrslitakeppnina með leik við sigurliðið í leik Memphis og San Antonio Spurs.

Lakers unnu New Orleans Pelicans í nótt en misstu LeBron James meiddan af velli. Hann kveðst þó klár í slaginn við Golden State á miðvikudagskvöld.

New York Knicks náðu heimavallarrétti í austurdeildinni þar sem liðið mætir Atlanta Hawks í 8-liða úrslitum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×