„Mig grunaði að allir hinir væru að svindla og ég vissi að hún var að fara að kjósa Trump,“ sagði Morphew um atkvæðið, en ekkert hefur spurst til eiginkonu hans Suzanne síðan í maí á síðasta ári. Þann 10. maí fór hún í hjólatúr í hverfinu þar sem hún bjó ásamt Morphew og dætrum þeirra, en lík hennar hefur aldrei fundist þrátt fyrir að hjólið og persónulegar eigur hennar hafi komið í leitirnar.
Morphew var handtekinn í byrjun mánaðar, tæplega ári eftir að eiginkona hans sást síðast. Hann hefur verið ákærður fyrir morð, eyðileggingu sönnunargagna og nú kosningasvik.
Atvikið var tilkynnt í október á síðasta ári, en Morphew greiddi póstatkvæði og mætti því ekki á kjörstað. Undirskrift Suzanne var ekki á kjörseðlinum en hann var skráður sem vitni. Þegar lögreglumenn spurðu hann út í atkvæðið og gerðu honum grein fyrir því að slíkt væri ólöglegt sagði Morphew: „Ég vissi ekki að þú mættir ekki gera þetta fyrir maka þinn.“