Innlent

Bóluefnin eru kröftug og því eðlilegt að margir finni fyrir aukaverkunum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Þórólfur G
vísir/vilhelm

Níundi einstaklingurinn greindist smitaður af kórónuveirunni í Skagafirði í gær. Sóttvarnalæknir segir hópsýkinguna þar dreifðari en menn hafi í fyrstu talið. Hann segir að þó margir kvarti yfir aukaverkunum vegna bólusetninga sé það eðlilegt, bóluefnin séu mjög kröftug.

 Níu hafa nú greinst smitaðir af kórónuveirunni í Skagafirði en nánast allt samfélagið þar er í sóttkví.

„Þetta teygir sig aðeins víðar en menn héldu en það var tekið mikið af sýnum þar í gær.  Langflest voru neikvæð þannig að vonandi verður þetta ekki meira en það gæti alveg orðið því meðgöngutími veirunnar er það langur,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 

Þrír eru nú á sjúkrahúsi vegna Covid-19, þar af tveir í gjörgæslu. Þórólfur segir fólkið með breska afbrigði veirunnar.

Hann segir að um fjögur prósent þeirra sem hafa veikst af breska afbrigðinu hafi þurft að leggjast inn á spítala en búist var að allt að 10% gætu þurft að leggjast inn þegar afbrigðið barst til landsins.

„Það er heldur lægra hlutfall en við bjuggumst við en við höfum ekki verið að greina það marga að það sé marktækt. Þetta gæti átt eftir að breytast í einu vettvangi. Þó hefur Covid-göngudeildin mikil áhrif þ.e. það er gripið strax inn í ef fólk byrjar að fá mikil einkenni,“ segir Þórólfur. 

Indverska afbrigði kórónuveirunnar er nú komið á gátlista Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.

„Það eru fréttir af því að það afbrigði sé meira smitandi en við eigum eftir að fá staðfestingu á því hvort það hegðar sér eitthvað öðruvísi,“ segir hann. 

Þórólfur segist hafa heyrt af mörgum sem kvarti yfir aukaverkunum eftir að hafa fengið bóluefni gegn Covid -19. Þá hefur Lyfjastofnun borist tæplega þúsund tilkynningar um aukaverkanir. 

Öll þessi bóluefni eru kröftug og valda kröftugu ónæmisviðbragði. Það var vitað fyrirfram að gætu orðið töluverð einkenni eftir bólusetningu með hita slappleika og beinverki. Það kemur að sjálfu sér ekki á óvart að svo margir kvarti yfir aukaverkunum,“ segir Þórólfur að lokum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×