Með samningunum munu Rússar geta dreift bóluefninu á mun meiri hraða til ríkja í Suður-Ameríku, Mið-Austurlöndum og Afríku sem hafa þegar tryggt sér skammta af bóluefninu. Bandaríkin og Evrópusambandið hafa að mestu einbeitt sér að því að tryggja bóluefnadreifingu innan sinna ríkja og er því mikil eftirspurn eftir Covid-19 bóluefnum í ríkjum sem framleiða ekki eigin bóluefni.
Áhyggjur um virkni Sputnik V bóluefnisins hafa minnkað töluvert eftir að læknatímaritið The Lancet greindi frá því að niðurstöður víðtækra rannsókna gæfu til kynna að bóluefnið veitti vörn í 91 prósentum tilvika.
Undanfarið hafa áhyggjur hins vegar verið uppi um dreifingu bóluefnisins en Rússar hafa gert samninga við fjölda ríkja víða um heim um kaup á hundruð milljónum bóluefnaskammta. Hins vegar hefur aðeins brot af því verið afhent þeim ríkjum og því mikil þörf á hraðari framleiðslu efnisins.
Þá hefur Rússland gert samninga við lyfjaframleiðendur í ýmsum ríkjum, þar á meðal á Indlandi, Suður-Kóreu, Brasilíu, Serbíu, Tyrklandi, Ítalíu og fleirum um framleiðslu Sputnik V. Svo virðist þó vera sem framleiðendur utan Rússlands hafi ekki hafið framleiðslu af alvöru, nema í Hvíta-Rússlandi og Kasakstan.
Breska tölfræðistofan Airfinity hefur áætlað að Rússland hafi gert samninga um sölu á um 630 milljón skömmtum af Sputnik V við meira en 100 ríki en aðeins 11,5 milljón skammtar hafa verið afhentir hingað til.