Í Laugardalnum voru Ólsarar í heimsókn hjá Þrótti Reykjavík en bæði lið leika í Lengjudeildinni í sumar. Eftir nokkuð jafnar upphafsmínútur kom Harley Bryn Willard gestunum yfir eftir hálftíma leik þegar hann fylgdi eftir góðu skoti sem endaði í stöng og slá.
Willard bætti við öðru marki sínu og öðru marki gestanna á 42. mínútu með marki úr vítaspyrnu. Árni Þór Jakobsson gerðist brotlegur innan vítateigs og vítaspyrna dæmd.
Staðan orðin 2-0 og þannig var hún í hálfleik. Eftir 20 mínútna leik í síðari hálfleik var staðan orðin 3-0 þegar Emmanuel Eli Keke bætti við þriðja markinu. Hann bætti svo við fjórða markinu tíu mínútum síðar en það dæmt af vegna rangstöðu.
Þróttur brunaði í sókn og minnkaði Samuel George Floyd muninn í 3-1. Á 83. mínútu leiksins fékk Hreinn Ingi Örnólfsson beint rautt spjald fyrir groddaralegt brot er hann stöðvaði skyndisókn Víkinga. Fór það svo að Víkingar unnu 3-1 sigur og tryggðu sér sæti í 32-liða úrslitum.
Pétur Bjarnason tryggði Vestra 1-0 sigur á 4. deildarliði KFR í dag með marki á 77. mínútu en leikið var á Ísafirði. Vestri leikur í Lengjudeildinni í sumar en átti erfitt með að brjóta varnarmúr gestanna á bak aftur.
Fjöldi annarra leikja, bæði í karla- og kvennaflokki, er á dagskrá síðar í dag.