„Við gátum pressað Valsarana nokkrum sinnum framarlega og þvinguðum þá nokkrum sinnum í að sparka boltanum út af. Við ætluðum að láta vaða á þá og vera óhræddir. Fyrri hálfleikurinn var mjög góður. Viktor [Jónsson] komst meira að segja í hættulegt færi á fjærstöng og við fengum einhver hálffæri,“ sagði Jóhannes Karl við íþróttadeild eftir leik.
„Við vorum sáttir með fyrri hálfleikinn og ætluðum að koma út í þann seinni og gera það sama. Ég get ekki annað en hrósað mínum mönnum fyrir að reyna og gefa allt í þetta.“
Jóhannes Karl var ósáttur við fyrra gula spjaldið sem Ísak Snær fékk.
„Mér fannst dómarinn svolítið aðstoða Valsmennina og sýna þeim full mikla virðingu í spjaldagjöf,“ sagði Jóhannes Karl.
„Mér fannst dómarann dæma vel og hef ekkert út á þá að setja en mér fannst fyrra gula spjaldið sem Ísak fékk, hann kom ekki við Patrick Pedersen sem henti sér upp, lagðist í jörðina og vældi út gult spjald. Haukur Páll [Sigurðsson] gerði svipað og liggur eftir. Mér fannst Birkir Már [Sævarsson] eiga að fá gult spjald fyrir að hjóla í Árna Snæ [Ólafsson] þegar við vorum að komast í hraða sókn. Eftir að við misstum Ísak út af var þetta virkilega erfitt.“
Skagamenn verða án Ísaks í leiknum gegn Víkingum um næstu helgi.
„Við viljum ekki að hann missi af mörgum leikjum því hann skiptir okkur miklu máli. En það kemur alltaf maður í manns stað. Þetta er ekki spurning um einstaklinga. Liðsheildin mun koma okkur áfram,“ sagði Jóhannes Karl.