Samkvæmt tölulegum upplýsingum á covid.is fengu 376 bóluefni Jansen í gær og virðist sem það séu fyrstu skammtar bóluefnisins sem hafa verið í notaðir hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja voru um þrjú hundruð einstaklingar bólusettir með bóluefni Jansen í þessari viku. Ekki hafa ennþá verið birtar tölur yfir fjölda bólusetninga sem fram fóru í dag en ætla má að sú tölfræði verði uppfærð á covid.is í fyrramálið.
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, smitsjúkdómalæknir hjá embætti Landlæknis, sagði í samtali við fréttastofu í síðustu viku að 2.400 skammta hafi þegar borist til landsins og að annar skammtur væri væntanlegur í þessari viku.
Jansen bóluefnið er frábrugðið öðrum bóluefnum við kórónuveirunni að því leyti að það er aðeins gefið einu sinni. Bóluefni Pfizer, Moderna og AstraZeneca er gefið tvisvar.
Áætlað er að í þessari viku muni um 23 þúsund einstaklingar fá fyrri bóluefnaskammt við covid-19 en í heildina verða 25 þúsund skammtar gefnir í vikunni þar sem notuð verða bóluefnin frá Pfizer, AstraZeneca og Janssen. Vikan er sú stærsta í bólusetningum vegna covid-19 frá upphafi.