Körfubolti

Gaupi fór yfir óvæntu úrslitin i kvennakörfunni í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ariel Hearn var frábær með Fjölnisliðinu í sigrinum á Haukum.
Ariel Hearn var frábær með Fjölnisliðinu í sigrinum á Haukum. Vísir/Elín Björg

Svipmyndir frá heilli umferð sem var spiluð í Domino´s deild kvenna í gærkvöldi þar sem lið Hauka og Keflavíkur misstígu sig bæði.

Fjölniskonur tryggðu sér sæti í úrslitakeppni Domino´s deildarinnar í gærkvöldi með sigri á Haukum og Blikar skelltu óvænt Keflavíkurkonum. Valskonur juku forskot sitt á toppnum og Snæfell vann lykilsigur í baráttu fyrir lífi sínu í deildinni.

Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaður á Stöð 2 Sport, fór yfir úrslitin í umferðinni í gær og tók saman samantekt um leikina fjóra. Það má sjá þessa samantekt hans hér fyrir neðan.

Klippa: Gaupi fór yfir átjándu umferð Domino´s deildar kvenna

Fjölnir vann 73-65 sigur á Haukum og tryggði sér ekki aðeins sæti í úrslitakeppninni heldur endaði Grafarvogsliðið þar einnig sex leikja sigurgöngu Hafnarfjarðarliðsins. Haukakonur höfðu ekki tapað leik frá 24. febrúar.

Ariel Hearn var frábær í Fjölnisliðinu með 29 stig, 9 fráköst og 7 stoðsendingar en Lina Pikciuté var með 14 stig og 17 fráköst. Sara Rún Hinriksdóttir skoraði mest fyrir Hauka eða 19 stig en Alyesha Lovett var með 16 stig.

Snæfell fór langt með að tryggja sér áframhaldandi sæti í deildinni með 77-61 sigri á KR í botnslagnum. Snæfell er nú með tveggja stiga forystu á KR og er að auki með betri innbyrðis stöðu.

Haiden Palmer var frábær með 39 stig, 9 fráköst, 7 stoðsendingar og 6 stolna bolta en Anna Soffía Lárusdóttir skoraði síðan 16 stig. Annika Holopainen var með 16 stig fyrir KR og Perla Jóhannsdóttir skoraði 14 stig.

Breiðabliksliðið sýndi mikinn styrk með 73-66 sigri á Keflavík. Hlutirnir hafa ekki alveg fallið með Blikastúlkum á tímabilinu en liðið sýndi hvað í því býr með sigri á liðinu í öðru sæti deildarinnar.

Iva Georgieva skoraði 28 stig, Isabella Ósk Sigurðardóttir var með 12 stig og 16 fráköst og þá var bandaríski leikstjórnandinn Jessica Kay Loera með 16 stoðsendingar auk 9 frákast og 8 stiga. Daniela Wallen var með 19 stig, 19 fráköst og 6 stolna bolta og Anna Ingunn Svansdóttir skoraði 18 stig.

Valskonur náðu fjögurra stiga forskoti á toppi deildarinnar eftir sannfærandi 80-63 sigur á Skallagrími. Það voru margar að skila í Valsliðinu í þessum leik.

Hildur Björg Kjartansdóttir var með 14 stig og 9 fráköst, Kiana Johnson skoraði 13 stig og gaf 8 stoðsendingar og þær Hallveig Jónsdóttir og Ásta Júlía Grímsdóttir voru báðar með 10 stig. Keira Robinson skoraði 17 stig fyrir Skallagrím og Embla Kristínardóttir var með 16 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×