Gangi allt að óskum verður geimferjunni skotið á loft með Falcon-eldflaug klukkan 5:49 að staðartíma, klukkan 9:49 að íslenskum tíma. Búist er við hagstæðum veðurskilyrðum yfir Kennedy-miðstöð bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA á Canaveral-höfða. Hætta þurfti við geimskotið vegna veðurs í gær.
Þetta verður þriðja mannaða geimferð einkafyrirtækisins SpaceX samkvæmt samningi þess við NASA um að flytja menn til geimstöðvarinnar. AP-fréttastofan segir að þetta sé í fyrsta skipti sem fyrirtækið notar til þess endurnýtta Falcon-eldflaug og Dragon-geimferju.
Um borð eru tveir bandarískir geimfarar, einn franskur og einn japanskur. Þeir eiga að leysa af hólmi áhöfn sem er fyrir í geimstöðinni og dvelja þar í sex mánuði.
Hægt er að sjá upptöku af geimskotinu í spilaranum hér fyrir neðan.
Uppfært 10:05 Geimskotið virðist hafa gengið að óskum og eru geimfararnir fjórir nú á leið til geimstöðvarinnar. Þeir eru væntanlegir þangað um klukkan 9:10 að íslenskum tíma á morgun. Nokkrum mínútum eftir að fyrsta þrep eldflaugarinnar var losað frá henni lenti það á pramma rétt austan við Flórídaskaga.
Liftoff of Falcon 9 and Dragon! pic.twitter.com/g6Oi8qwU2Y
— SpaceX (@SpaceX) April 23, 2021