Innlent

Smitið á Jörfa rakið til sóttkvíarbrots á landamærunum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Víðir Reynisson segir að um bakslag sé að ræða.
Víðir Reynisson segir að um bakslag sé að ræða. VILHELM GUNNARSSON

Smitið sem greindist á leikskólanum Jörfa á föstudag má rekja til sóttkvíarbrots á landamærunum. Þetta segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna.

Flest þeirra þrettán smita sem greindust í gær má rekja til leikskólans Jörfa. Starfsmaður þar greindist með veiruna á föstudag. Smitið tengist landamærasmiti. Allt starfsfólk, öll börn og foreldrar þeirra verða í sóttkví fram á föstudag.

„Við vitum uppruna smitsins og erum komin með niðurstöður úr raðgreiningu og slíku og þetta tengist landamærasmiti,“ sagði Víðir Reynisson.

„Við erum að fá betri sýn á þessi tengsl. Við sjáum beina tengingu við sóttkvíarbrot á landamærunum.“

Þrettán greindust með kórónuveiruna í gær og voru átta utan sóttkvíar. Víðir Reynisson segir að um bakslag sé að ræða. Ekki séu öll kurl komin til grafar og býst hann við að þeim fjölgi sem þurfa í sóttkví.

Íbúar í nágrenninu hvattir til að fara í skimun

Víðir hvetur þá sem hafa umgengist starfsmenn eða börn á leikskólanum Jörfa síðustu viku að fara í skimun og á það við um börn jafnt sem fullorðna. Leikskólinn er staðsettur að Hæðargarði í póstnúmeri 108 Reykjavík. Einnig hvetur hann íbúa sem búa í næsta nágrenni leikskólans að fara í skimum. Mikið álag verður í sýnatöku í dag og því er mikilvægt að fólk skrái sig fyrirfram.

„Það kemur inn á Heilsuveru í dag sérstakur valhnappur þegar þú velur sýnatöku þar um sýnatöku sem tengist leikskólanum Jörfa. Þannig að fólk getur smellt á það og komist þannig inn,“ sagði Víðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×