Eldfjallafræði og náttúruvárhópur Háskóla Íslands vekur athygli á þessu í færslu á Facebook þar sem bornar eru saman eldri og nýrri myndir úr vefmyndavél.
„Yfirborð pollsins hefur lækkað um einhverja metra, en ekki er vitað með vissu hvert hraunkvikan flæddi frá pollinum, en lægð í rima hans að norðanverðu gæti bent til þess að útflæðið hafi verið til norðvesturs. Flæði heldur áfram í pollinn og verður fróðlegt að sjá hvort og hversu hratt tekst að fylla hann á nýjan leik,“ segir í færslunni.
Birtar eru einnig myndir sem teknar eru úr streymi úr vefmyndavél mbl.is og sýnt með hvítri brotalínu hvernig hraunpollurinn hefur breyst fyrir og eftir tæmingu. „Jafnframt er athyglisvert að hrúgöldin sem urðu til við hrun frá gígveggjunum hafa færst til og greinilega eru, tímabundið, á floti í hraunflæðinu. Hrúgaldið með gula punktinum hefur færst verulega en það með appelsínugula punktinum hefur lítið færst úr stað, en snúist,“ segir ennfremur í færslunni.