„Ég er búinn að sitja á laginu í smá tíma svo ég er kominn með pínu leið á því. Ég er alltaf í sjokki þegar fólk er bara „omg þetta er æði“ og ég er bara „what“ því ég fatta ekki að fólk er að heyra þetta í fyrsta skiptið.“
Lagið heitir einfaldlega Bassi Maraj og fengu áhorfendur raunveruleikaþáttanna Æði að fylgjast með ferlinu á bak við. Lagið er framleitt af Arnari Inga Ingasyni, sem er betur þekktur sem Young Nazareth, en hann hefur starfað með mörgum vinsælustu tónlistarmönnum landsins.
Von er á tónlistarmyndbandi bráðum en Bassi segist vera rétt að byrja. Það er honum þó mikið hjartans mál að betri tök náist á kórónuveirufaraldrinum, enda sakni hann þess að kíkja á næturlífið og vill hann ólmur komast á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. „Ég væri alveg til í að spila þar, en mig langar aðallega bara að djamma sko.“

„Þetta er bara æði“
„Úff já. A whole success,“ segir Bassi í samtali við Vísi þegar hann er spurður út í viðtökurnar og vísar þar til velgengni lagsins. Hann segir viðbrögðin hafa komið skemmtilega á óvart. „Þetta er bara æði.“
Laginu hefur verið streymt rúmlega 40 þúsund sinnum á Spotify frá því að það var gefið út í gær. Strax á fyrsta degi voru streymin orðin rúmlega 25 þúsund og var því fyrsta sætið á íslenska vinsældalistanum á Spotify nokkuð öruggt.
Útgáfu lagsins verður fagnað á kvöld í góðra vina hópi, þar á meðal Patreki Jaime, Binna Glee og tvíburunum sem aðdáendur Æði kannast við, en Patrekur fagnar einmitt 21 árs afmæli sínu í dag.
„Það er heill dagur. Það er þyrluflug og læti. Bröns og dinner og bowling með Binna, Patta og the twins.“