„Við höfum í dag fengið eina mögulega tilkynningu um blóðtappa og það á bara eftir að fara yfir það hvort sé samhengi þarna á milli. Við höfum hins vegar einnig fengið eina tilkynningu eftir Pfizer og Moderna bólusetningu um blóðtappa,“ sagði Rúna í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Bólusetning með bóluefni AstraZeneca var stöðvuð tímabundið í dag vegna fregna um að blóðtappi sé möguleg aukaverkun. Evrópska lyfjastofnunin fundaði í dag vegna málsins.
Sérfræðingur í ónæmissfræðum sagði í dag að ekkert bendi til þess að tilfelli blóðtappa í Evrópu tengist bólusetningu með bóluefni AstraZeneca. Lyfjastofnun Evrópu heldur hinu sama fram í tilkynningu í dag og mælir áfram með bóluefni AstraZeneca.
„Það voru fundir hjá lyfjagátanefnd Evrópsku lyfjastofnunarinnar og fundir hjá forstjórum evrópskra lyfjastofnana og það sem kemur fram er að það á að setja af stað rannsókn um það hvort það séu tengsl milli blóðtappa og gjöf á AstraZeneca bóluefninu,“ sagði Rúna.
„Það er ekkert sem bendir til þess að svo stöddu en þetta verður skoðað í þaula og niðurstöðurnar munu liggja fyrir í lok næstu viku.“
Hún segir að eðli málsins samkvæmt hafi tilkynningar borist um aukaverkanir í kjölfar bólusetningar með bóluefni AstraZeneca en það sé ekkert meira en eftir önnur bóluefni.
„Þrjár af þeim eru ofnæmislost og andþyngsli sem gengur til baka,“ segir Rúna.