Erlent

Saksóknarar komnir með skattgögn Trumps

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. AP/Gerald Herbert

Saksóknarar í Manhattan í New York eru komnir með skattskýrslur og önnur fjármálagögn Donalds Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Það er eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna hafnaði kröfu Trumps um að ekki mætti veita saksóknunum gögnin.

Í tilkynningu frá talsmanni ríkissaksóknara New York segir að endurskoðendafyrirtækið Mazars, sem hefur um árabil séð um skatta Trumps, hafi afhent skjölin. Um eitt og hálft ár er síðan saksóknarar stefndu fyrirtækinu og kröfðust þeirra.

Skjölin voru afhent á mánudaginn, einungis nokkrum klukkustundum eftir úrskurð Hæstaréttar. Um er að ræða 1,8 milljónir blaðsíðna af skjölum, samkvæmt frétt Washington Post.

Cyrus Vance yngri, ríkissaksóknari New York.AP/Craig Ruttle

Trump er eini forseti Bandaríkjanna sem hefur ekki birt skattskýrslur opinberlega og hefur hann barist gegn því að þær verði opinberaðar. Hann hefur höfðað fjölmörg dómsmál en tapað þeim flestum.

Þær upplýsingar sem fjölmiðlar hafa komið höndum yfir hafa ekki verið Trump í hag og hefur hann jafnvel verið sakaður um skattsvik vegna þeirra.

Beiðni saksóknaranna í New York er sögð tengjast sakamálarannsókn gegn Trump sem beinist meðal annars að greiðslum sem Michael Cohen, fyrrverandi einkalögmaður Trumps, greiddi til kvenna í aðdraganda forsetakosninganna 2016 í skiptum fyrir þögn þeirra um kynferðisleg samskipti þeirra við Trump.

Sjá einnig: Hæsti­réttur heimilar af­hendingu skatt­skýrslna Trumps

Meðal þess sem saksóknarar leita í gögnunum eru vísbendingar um að Trump hafi sagt skattinum að hann væri blankur, á sama tíma og hann segði lánveitendum að hann væri ríkur. Samkvæmt greiningu AP fréttaveitunnar munu þeir einnig skoða hvort Trump hafi framið bankasvik.

Einnig munu þeir skoða þær aðferðir sem Trump beitti til að draga úr skattgreiðslum sínum.


Tengdar fréttir

Stormy Dani­els fær ekki að á­frýja til Hæsta­réttar

Hæstiréttur Bandaríkjanna hafnaði beiðni klámstjörnunnar um áfrýjun á frávísunarúrskurði í meiðyrðamáli hennar gegn Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Beiðninni var hafnað án athugasemda.

Greiðslur til Ivönku Trump til rannsóknar í New York

Skattaafskriftir Donalds Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseta, eru nú viðfangsefni tveggja rannsókna í New York. Rannsóknirnar beinast meðal annars að ráðgjafargreiðslum sem virðast hafa runnið til Ivönku Trump, dóttur forsetans.

Aftur tapar Trump í skattskýrslumálinu

Alríkisdómari í Manhattan hafnaði í morgun málatilbúnaði Bandaríkjaforseta sem hefur því verið gert að láta skattagögn sín af hendi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×