Sport

Sló 27 ára gamalt heimsmet í grindahlaupi: „Þeir lugu fyrst að mér“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Grant Holloway var kátur eftir að heimsmetstíminn hans var staðfestur í Madrid í gær.
Grant Holloway var kátur eftir að heimsmetstíminn hans var staðfestur í Madrid í gær. Getty/David Ramos

Bandaríski spretthlauparinn Grant Holloway náði sögulegu hlaupi á heimsmótaröð innanhúss, World Indoor Tour, í Madrid í gær.

Grant Holloway setti þá nýtt heimsmet í 60 metra grindahlaupi með því að koma í mark á 7,29 sekúndum.

Holloway var búinn að vera nálægt metinu að undanförnu og var meðal annars aðeins 0,02 frá því fyrir tveimur vikum.

Metið féll hins vegar í gær en það var í eigu hin velska Colin Jackson.

Holloway fagnaði þó ekki metinu strax því það leit út fyrir það að hann hefði rétt misst af því.

„Þeir lugu fyrst að mér og sögðu að ég hefði hlaupið á 7,32 sekúndum,“ sagði Grant Holloway í gríni í spænsku sjónvarpsviðtali eftir hlaupið.

Hér fyrir neðan má sjá hlaupið hans Holloway frá því í gær.

Colin Jackson hljóp á 7,30 sekúndum í mars 1994 og var því búinn að eiga heimsmetið í næstum því 27 ár.

Holloway er 23 ára gamall og var við nám við University of Florida en ákvað að gerast atvinnumaður eftir þriðja árið sitt í skólanum.

Hann á nú fjögur af sex fljótustu hlaupum sögunnar en hann hefur fjórum sinnum hlaupið 60 metra grindahlaup á undir 7,35 sekúndum.

Grant Holloway has just wrapped the greatest 60m hurdle season in history. Five meets, five wins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×