Handbolti

Berst fyrir lífi sínu eftir hjartastopp á æfingu

Sindri Sverrisson skrifar
Alfredo Quintana hefur leikið yfir 70 landsleiki fyrir Portúgal.
Alfredo Quintana hefur leikið yfir 70 landsleiki fyrir Portúgal. EPA-EFE/Ole Martin Wold

Portúgalski landsliðsmarkvörðurinn Alfredo Quintana, sem Íslendingar fengu að kynnast svo vel í janúar, fékk hjartastopp á handboltaæfingu með Porto í gær.

Quintana berst nú fyrir lífi sínu á Sao Joao sjúkrahúsinu í Porto en þangað var hann fluttur eftir að hafa hnigið niður á æfingu. Frekari upplýsingar verða gefnar þegar þær berast, segir í stuttri tilkynningu frá félagsliði hans.

Quintana er lykilmaður í portúgalska landsliðinu og stóð í markinu í leikjunum þremur gegn Íslandi í undankeppni EM og á HM í Egyptalandi í síðasta mánuði. Hann er í afar miklum metum í portúgölskum handbolta og í grein Record segir að til marks um það sé fjöldi stuðningsskilaboða frá fyrrverandi og núverandi liðsfélögum, mótherjum og fleirum.

Alfredo Quintana lék leikina þrjá gegn Íslandi í janúar og sýndi hvers hann er megnugur.vísir/hulda margrét

Á Twitter-síðu Benfica, keppinauta Porto, segir til að mynda: „Í þessum leik erum við öll með þér í liði. Áfram Alfredo Quintana!“

Sergio Conceicao, þjálfari knattspyrnuliðs Porto, hóf blaðamannafund eftir 2-1 sigurinn á Marítimo í gærkvöld á því að senda Quintana batakveðjur: „Við sendum stórt faðmlag til fjöslkyldunnar og biðjum auðvitað fyrir því að allt fari vel.“

Quintana er 32 ára gamall, fæddur á Kúbu en hefur búið í Portúgal síðasta áratuginn. Hann á að baki yfir 70 landsleiki fyrir Portúgal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×