Katla Björg varð í 34. sæti og Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir kom næst á eftir henni, af þeim 99 keppendum sem kepptu. Sigríður Dröfn Auðunsdóttir féll úr leik í seinni en Hjördís Birna Ingvadóttir var úrskurðuð úr leik eftir fyrri ferð.
Lara Gut frá Sviss, eða Gut-Behrami eins og hún heitir eftir að hafa gifst knattspyrnumanninum Valon Behrami, varð heimsmeistari.
„Ég bjóst svo sannarlega ekki við þessu í dag. Ég er í skýjunum yfir úrslitunum. Það er algjör draumur að vinna gull í stórsvigi á HM,“ sagði Gut-Behrami.

Hún kláraði ferðirnar tvær á 2:30,66 mínútum og náði að skjóta sér fram úr Mikaelu Shiffrin frá Bandaríkjunum. Aðeins 2/100 úr sekúndu munaði á þeim. Katharina Liensberger frá Austurríki fékk bronsverðlaun og var aðeins 9/100 úr sekúndu á eftir Gut-Behrami.
Katla Björg kláraði ferðirnar tvær á samtals 2:44,85 mínútum, eða 14,19 sekúndum á eftir Gut-Behrami. Hólmfríður Dóra kláraði á 2:49,37 mínútum.
Sturla Snær Snorrason varð í 17. sæti í undankeppninni í stórsvigi karla og verður því meðal þátttakenda í aðalkeppninni á morgun.