Gestirnir í Ribe-Esbjerg byrjuðu leikinn betur og náðu ágætis forystu um miðbik fyrri hálfleiks. Þegar honum lauk var munurinn orðinn fimm mörk, staðan þá 15-20 og gestirnir í góðum málum.
Íslendingaliðið slakaði lítið á klónni í síðari hálfleik og jók forystuna enn frekar. Á endanum vann það leikinn með sjö marka mun, 37-30 lokatölur gestunum í vil.
Rúnar Kárason og Daníel Þór Ingason áttu báðir stórleik í liði Ribe-Esbjerg í kvöld og gerðu fimm mörk hvor.
Sigurinn var mikilvægur fyrir Íslendingaliðið en Fredericia er í sætinu fyrir ofan liðið í töflunni og hefði náð fimm stiga forystu með sigri í kvöld. Í stað þess er munurinn nú aðeins eitt stig.
Ribe-Esbjerg er í 10. sæti með 17 stig en Fredericia í því 9. með 18 stig. Þar fyrir ofan kemur svo Kolding með 19 stig. Þau eiga þó bæði leik til góða á Íslendingaliðið.