Öldungadeildin ákvað fyrr í dag að kalla til vitni í réttarhöldunum og greiddu 55 þingmenn öldungadeildarinnar atkvæði með því að kalla vitnin til. Saksóknarar í málinu höfðu lýst yfir áhuga á því að fá fram vitnisburð fulltrúadeildarþingmannsins og Repúblikanans Jamie Herrera Butler, sem var einn þeirra tíu Repúblikana sem greiddi atkvæði með því að ákæra Trump.
Verjendur Trumps og saksóknarar í málinu komust að samkomulagi um að sleppa vitnaleiðslunum og þess í stað leggja fram vitnisburð Butler á upptöku. Saksóknarar vilja sérstaklega fá upplýsingar frá henni um símtal milli Trumps og Kevins McCarthy, leiðtoga Repúblikana í fulltrúadeildinni. Í því símtali er Trump meðal annars sagður hafa skammað McCarthy og á hann að hafa sagt að múgurinn sem réðst inn í þinghúsið 6. janúar hafi látið sig úrslit forsetakosninganna meiru varða en McCarthy.
Ákvörðun öldungadeildarinnar vakti mikla furðu innan herbúða forsetans fyrrverandi, en búist var við því að niðurstaða fengist í málið í fyrsta lagi í dag. Flestir vestanhafs búast við því að forsetinn fyrrverandi verði sýknaður, en til þess að hann verði sakfelldur þurfa allir fimmtíu öldungadeildarþingmenn Demókrata auk sautján þingmanna Repúblikana að greiða atkvæði með sakfellingu.