Alvarlegar athugasemdir voru gerðar við brunavarnir í húsinu, en þar segir ljóst að nauðsynlegt sé að gera töluverðar úrbætur á húsnæðinu. Þær breytingar varða sérstaklega flóttaleiðir, vatnsleka, brunahólfun, rafmagnsmál og leiðir til reyklosunar. Skessuhorn greinir frá þessu.
Um er að ræða húsnæði við Brákarbraut 25 og 27 í Brákarey, þar sem félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir eru með starfsemi. Rekstraraðilum í húsnæðinu var tilkynnt um lokunina á fundi í dag. Grímshús í Brákarey verður eina húsnæðið í eyjunni í eigu sveitarfélagsins sem fær að vera opið áfram.
Eldvarnareftirlitið og byggingafulltrúi gerðu úttekt í húsnæði Ölunnar í síðustu viku og var í kjölfarið ákveðið að framkvæma heildarúttekt á húsnæðinu að Brákarbraut 25-27. Fram kemur hjá Skessuhorni að í kjölfar þess að niðurstöður lágu fyrir var ekki annað í stöðunni en að loka húsnæðinu um óákveðinn tíma.
Eldvarnareftirlitið og byggingafulltrúi gerðu alvarlegar athugasemdir vegna brunavarna í húsinu og segir Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri í samtali við Skessuhorn að ekki hafi annað komið til greina en að loka húsnæðinu.
„Þessi ákvörðun er okkur ekki léttvæg en við erum fyrst og fremst að hugsa um öryggi þeirra aðila sem hafa notað aðstöðuna í húsnæðinu. Niðurstöður úr úttektunum hafa leitt í ljós að nauðsynlegt er að gera töluverðar úrbætur á húsnæðinu, m.t.t. til eldvarna- og öryggismála. Helstu athugasemdir varða flóttaleiðir, vatnsleka, brunahólfun, rafmagnsmál og leiðir til reyklosunar,“ segir Þórdís.
Engin ákvörðun hefur verið tekin um næstu skref í málinu og framtíð húsanna. Byggðarráð Borgarbyggðar mun í næstu viku ræða málið á fundi sínum og ákvörðun verður þá tekin um næstu skref.