Körfubolti

Derrick Rose og Thibodeau sameinaðir á ný og nú í NY

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Derrick Rose og Tom Thibodeau þegar þeir unnu saman hjá Chicago Bulls. Leiðir þeirra liggja nú saman hjá þriðja félaginu.
Derrick Rose og Tom Thibodeau þegar þeir unnu saman hjá Chicago Bulls. Leiðir þeirra liggja nú saman hjá þriðja félaginu. Getty/Mike Ehrmann

Derrick Rose er kominn í nýtt lið í NBA deildinni í körfubolta eftir að Detroit Pistons og New York Knicks sömdu um að skiptast á leikmönnum.

Derrick Rose fer til New York Knicks í skiptum fyrir bakvörðinn Dennis Smith Jr. og valrétt í annarri umferð nýliðvalsins í sumar sem Detroit Pistons fékk á sínum tíma frá Charlotte Hornets.

Viðræðurnar hafa staðið yfir í dágóðan tíma en New York Knicks vildi fá Derrick Rose.

Þetta er í annað skiptið sem Derrick Rose kemur til félagsins en það gekk ekki vel hjá honum í þríhyrningssókninni í valdatíð Phil Jackson tímabilið 2016-17.

Nú er aftur á móti allt annað í gangi hjá New York Knicks en þjálfara liðsins þekkir Derrick Rose mjög vel.

Tom Thibodeau þjálfar lið New York Knicks en Derrick Rose varð sá yngsti í sögunni til að vera kosinn mikilvægasti leikmaður NBA deildarinnar þegar hann lék undir stjórn Thibodeau hjá Chicago Bulls tímabilið 2010-11. Rose var þá með 25,0 stig og 7,7 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Þeir Rose og Thibodeau unnu einnig saman hjá Minnesota Timberwolves 2017-18 tímabilið.

Rose var aðeins 22 ára gamall þegar hann var kosinn bestur í NBA deildinni en hann var ekki sami leikmaður efir að hann sleit krossband í fyrsta leik í úrslitakeppninni 2012.

Það hefur verið allt annað að sjá New York Knicks liðið síðan að Thibodeau tók við og þá sérstaklega varnarlega. Samkvæmt tölfræðinni er Knicks liðið sjötta besta varnarlið deildarinnar.

Derrick Rose var með 14,2 stig og 4,2 stoðsendingar að meðaltali í fyrstu fimmtán leikjum tímabilsins sem leikmaður Detroit Pistons en það eru lægri tölur en í fyrra þegar kappinn var með 18,1 stig og 5,6 stoðsendingar í leik.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×