Skoðun

Ferða­frelsi í þjóð­garði

Tryggvi Felixson skrifar

Hálendi Íslands er ein verðmætasta auðlind Íslands, ef ekki sú verðmætasta. Að mati stjórnar Landverndar er ekki til betri leið til að vernda þessa auðlind, tryggja aðgengi almennings að henni og stýra umgengni og nýtingu hennar, en með stofnun þjóðgarðs. Framlagt frumvarp þar um er málamiðlun, þar sem gera má enn betur og er það viðfangsefni Alþingis nú á vorþingi. Allir sem láta sig málið varða eru hvattir til að kynna sér frumvarpið og senda rökstuddar athugasemdir til þingmanna ef þeir telja að eitthvað megi betur fara.

Landvernd hefur skilað inn sínum athugasemdum sem finna má á heimasíðu samtakanna. Unnendur íslenskrar náttúru mega ekki missa sjónar á því að Hálendisþjóðgarður yrði risastórt framlag til náttúruverndar, þó að útfærsla ríkisstjórnarinnar hugnist þeim ekki. Hana má bæta í meðförum Alþingis.

Garður fólksins

Það liggur í nafngiftinni, þjóðgarður, að eitt megin viðfangsefnið við stofnun og rekstur þjóðgarðs er að tryggja aðgengi og upplifun gesta sem hann sækja. Í umræðu undanfarið hefur talsvert borið á ótta við að þjóðgarður skerði ferðafrelsi almennings og vísað til reynslu þar sem einstaka slóðum fyrir jeppa hefur verið lokað í Vatnajökulsþjóðgarði.

Um ferðir á hálendinu gilda lög og reglur í dag svo frelsið er takmörkunum háð. Til að mynda er akstur utan vega bannaður og í vorleysingum eru vegir iðulega lokaðir. Einnig gilda meginreglur um almannrétt sem skilgreindar eru IV. kafli náttúruverndarlaga frá 2013 þar sem fjallað er um almannarétt, útivist og umgengni. Við stofnun þjóðgarðs verða að öllum líkindum heimildir til að stýra umferð og síðar verður gerð „stjórnunar- og verndaráætlanir“ fyrir þjóðgarðinn. Heimild til að stýra umferð er nauðsynleg í þjóðgarði svo að tryggja megi verndun náttúru og víðerna, en einnig vegna öryggis ferðmanna þar sem hættulegt getur verið að beina þeim á ákveðnar ferðleiðir.

Almannarétturinn skal vera meginregla

Stjórn Landverndar hefur fjallað nokkuð um þetta atriði og leggur áherslu á að megin regla um ferðir í Hálendisþjóðgarði verði „almannrétturinn“. Reglur um umferðarrétt almennings og aðgengi að Hálendisþjóðgarði skulu því aðeins víkja frá þeim almennu reglum sem gilda um útvist og umgengni, að ríkir verndarhagsmunir krefjast þess. Með því að binda „almannréttarákvæðiðið“ í lög um Hálendisþjóðgarð má tryggja að hófs verði gætt í öllum ferðatakmörkunum; komi til slíka takmarkana verði það gert að undagengnu víðtæku samráði og góðum stjórnsýsluháttum.

Ökuleið í Vonarskarði

Landvernd hefur í fjölmiðlum og ekki hvað síst á samfélagsmiðlum verið gagnrýnt fyrir að styðja lokun Vonarskarðs fyrir akstri að sumri til, en svæðið er opið til aksturs á frosinni og snævi þakinni jörð eins og hálendið almennt. Landvernd hefur ekkert ákvörðunarvald í þessum efnum og leggur til umsagnir eins margir fleiri. Málið var til umfjöllunar á síðasta ári og þeir sem vilja kynna sér afstöðu Landverndar í smáatriðum geta lesið tvö bréf til Vatnajökulsþjóðgarðs (VJÞ) sem stjórnin sendi: Svör við spurningum VJÞ og bréf til stjórnar VJÞ.

Almennt er um þetta mál að segja að svo virðist sem nokkuð víðtæk sátt hafi náðst um ökuleiðir innan Vatnajökulsþjóðgarðs og samráð verið með ágætum ef marka má skýrslur þar um. Opnir hálendisvegir og slóðar eru um 800-900 km. innan þjóðgarðsins eftir því sem ég hef komist næst. Lokanir hafa fyrst og fremst miðast við leiðir þar sem aðrir valkostir eru til staðar, þar sem slóðar teljast afar hættulegar eða ógreinilegir og þar sem náttúrspjöll eru talin geta hlotist af mikilli umferð.

Stjórn Landverndar telur að varfærnis- og öryggissjónarmið styðji áframhaldandi lokun Vonarskarðs. Náttúruverndarrök eru m.a. þau að verndarstig Vonarskarðs er óumdeilanlega mjög hátt og einstök náttúra við skarðið, votlendi og hverasvæði í yfir 900 m hæð yfir sjó, er afar viðkvæm fyrir raski; allar skemmdir eru að sama skapi lengi að jafna sig. Bætt aðgengi með opnun fyrir vélvæddri umferð gæti aukið hættu á tjóni.

Öfgar eða hófstillt verndarsjónarmið

Um þetta efni eru eðlilega skiptar skoðanir og má með réttu segja að þetta sé flókið og erfitt álitamál. Ef breyta á núverandi fyrirkomulagi telur stjórn Landverndar að um það þurfi að nást mjög víðtæk sátt, líka með þeim sveitarfélögum sem í hlut eiga en þau hafa talið best að halda Vonarskarði lokuðu. Til eru þeir sem kalla þessa afstöðu Landverndar „öfgar í náttúruverndarmálum“. Stjórn Landverndar telur að þetta sé í samræmi við varúðarreglu umhverfisréttar og að hún vinni auk þess í samræmi við markmið samtakanna; „að verndun náttúru og umhverfis Íslands á landi, í legi og í lofti svo þeim verði sem minnst spillt, okkur og komandi kynslóðum til handa“. Það er miður að bæði málsmetandi félög og einstaklingar segja skilið við Landvernd vegna þessara afstöðu stjórnar samtakanna. Sem betur fer koma nýir í stað þeirra sem fara og fylla skarðið. Svo hafa allir félagar tækifæri til að taka málið á dagskrá á aðalfundi samtakanna í maí 2021 og geta reynt að fá afstöðu samtakanna til málsins endurmetna. Það er gangur málsins í lýðræðislegum samtökum.

Höfundur er formaður Landverndar.




Skoðun

Sjá meira


×