Patrik er leikmaður Brentford á Englandi en var að láni hjá Viborg í haust og á sinn þátt í því að Viborg er á toppi dönsku 1. deildarinnar. Hann fékk aðeins 9 mörk á sig í 12 leikjum með liðinu.
Lánsdvölinni hjá Viborg lauk um áramót en forráðamenn Silkeborg, sem einnig leikur í 1. deild Danmerkur, voru þá fljótir til að fá Patrik að láni, eftir að hafa tapað báðum leikjum sínum gegn Patrik og liði Viborg í haust.
Hjá Silkeborg verður Patrik liðsfélagi Stefáns Teits Þórðarsonar. Patrik kveðst í samtali við heimasíðu Silkeborg vonast til að geta hjálpað liðinu að komast upp í úrvalsdeild en liðið er í 3. sæti með 31 stig, sjö stigum á eftir Viborg og Esbjerg.
Patrik, sem hefur verið viðloðandi A-landslið Íslands, var aðalmarkmaður U21-landsliðsins sem tryggði sér sæti í lokakeppni EM í fyrra. Hann verður því væntanlega í liðinu sem mætir Rússlandi, Danmörku og Frakklandi dagana 25.-31. mars, í fyrri hluta lokakeppninnar.
Patrik er tvítugur og uppalinn hjá Breiðabliki. Hann fór frá Blikum til Brentford sumarið 2018 og hefur leikið einn deildarleik fyrir félagið, en farið að láni til Southend United, Viborg og nú Silkeborg.