Fótbolti

Ítölsku liðin byrja að æfa í vikunni

Sindri Sverrisson skrifar
Birkir Bjarnason í leik með Brescia.
Birkir Bjarnason í leik með Brescia. vísir/getty

Þó að farið sé að rofa til í baráttu Ítala við kórónuveirufaraldurinn er alls ekki víst að hægt verði að klára tímabilið í ítalska fótboltanum. Flest liðanna í ítölsku A-deildinni ættu þó að snúa aftur til æfinga í vikunni.

Ítölsk stjórnvöld hafa tilkynnt að knattspyrnumenn fái að mæta til æfinga á æfingasvæðum sinna félaga frá og með morgundeginum. Hins vegar fái þeir bara að æfa einir, fyrst um sinn. Áður hafði staðið til að aðeins íþróttafólk í einstaklingsgreinum fengi að snúa aftur til æfinga á morgun, en að íþróttafólk í hópíþróttum mætti ekki mæta á æfingasvæði síns félags fyrr en í fyrsta lagi 18. maí. Nokkur héruð í landinu höfðu ákveðið að fara gegn þessum leiðbeiningum og það mun hafa leitt til breyttrar afstöðu Vincenczo Spadafora, íþróttamálaráðherra. Birkir Bjarnason og aðrir í ítölsku A-deildinni geta því snúið aftur á sitt æfingasvæði .

Hins vegar hafa miðlar á borð við La Repubblica og La Gazzetta dello Sport sagt að enn sé alls kostar óvíst að leiktíðin á Ítalíu verði kláruð. Fundur Spadafora og Guiseppe Conte forsætisráðherra á miðvikudag, með nefnd á vegum deildakeppninnar, mun líklega ráða úrslitum.

Ef að ítalska deildin hefst að nýju þá verður það í fyrsta lagi 14. júní.

Frakkar, Belgar og Hollendingar hafa þegar ákveðið að ekki verði spilað meira í sumar. Þjóðverjar ætla sér hins vegar að byrja í þessum mánuði og Englendingar og Spánverjar halda enn í vonina um að geta klárað sín tímabil.


Tengdar fréttir

Lögreglan skipaði Birki Bjarna að fara heim

Birkir Bjarnason, leikmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu og Brescia í ítölsku úrvalsdeildinni, er um þessar mundir fastur á heimili sínu á Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×