Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,48 prósent milli mánaða í apríl og mælist verðbólga nú 2,2 prósent samanborið við 2,1 prósent í mars. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans sem birt var í morgun þar sem ennfremur segir að vísitala neysluverðs án húsnæðis hafi hækkað um 0,57 prósent milli mánaða og mælist verðbólga 1,9 prósent á þann mælikvarða.
Landsbankamenn segja mælinguna hafa komið verulega á óvart en opinberar spár gerðu ráð fyrir mun minni hækkun og Landsbankinn hafði spáð hækkun upp á 0.1 prósentustig.
Í hagsjánni segir að, enginn einn liður skýri muninn á spá bankans og endanlegri tölu, heldur hafi næstum allir undirliðir hækkað umfram væntingar. Því virðist sem það séu aðallega gengisáhrif sem eru að koma fyrr og sterkar fram í verðbólgunni en sérfræðingarnir áttu von á.