Handbolti

Segir að handboltanum sé stjórnað af fólki sem veit ekkert um handbolta

Anton Ingi Leifsson skrifar
Vlado Stenzel er einn frægasti handboltaþjálfari sögunnar.
Vlado Stenzel er einn frægasti handboltaþjálfari sögunnar. vísir/getty

Fyrsti handboltaþjálfarinn sem stýrði liði til sigurs á Ólympíuleikunum árið 1972 er hann vann gullið með Júgóslavíu segir að handboltanum sé stýrt af fólki sem hefur lítið sem ekkert vit á handbolta.

Vlado Stenzel varð bæði meistari með Júgóslavíu 1972 og heimsmeistari með Vestur-Þýskalandi 1978. Hann var í viðtali við hlaðvarpið Balkan-Handball um stærstu vandamál handboltans í dag.

„Mér finnst að handboltinn sé bara að þróast í ákveðnum löndum. Hann er ekki nógu áhugaverður fyrir stuðningsmenn. Það eru svo mörg vandamál varðandi reglurnar í leiknum,“ sagði Stenzel og hélt áfram.

„Þegar þú lítur á stjórn IFH þá eru meðlimir frá Afríku og Asíu, sem vita ekkert um handbolta. Þeir eru að ráða framtíð handboltans. Reglurnar eru of flóknar og venjulegur íþróttaáhugamaður þarf mánuði til þess að skilja reglunar.“

Hann segir að reglurnar séu of flóknar í handboltanum og það þurfi að einfalda þær eða gera þær einfaldlega meira spennandi. Íþróttin sé langt á eftir körfuboltanum til að mynda.

„Þú veist ekki hvenær það er brot og hvenær ekki. Þú þarft fingur til þess að telja sendingar hvort að það sé leiktöf eða ekki. Það er auðvelt að búa til reglur í handbolta, til þess að gera íþróttina meira spennandi bæði fyrir fólk og fjölmiðla.“

„Körfuboltinn er heimsfræg íþrótt og við erum ekki á sama stalli vegna reglnanna. Þú ert að tapa með fimmtán stigum þegar fimm mínútur eru eftir og þú átt möguleika á að gera leikinn spennandi. Þegar liðið þitt í handbolta er að tapa með tíu mörkum í handbolta er eina sem þú getur gert að fara úr höllinni og fara heim.“

Stenzel endaði svo viðtalið á léttu nótunum en hann nýtur lífsins í Dalmatiu í Króatíu.

„Við erum með svo mörg vandamál og ég get ekki gert breytingar á þeim því ég er ekki í stjórninni. Ég er bara í Dalmatia svo eina sem ég get gert er að borða góðan fisk og drekka góð vín,“ sagði Stenzel léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×