Fótbolti

Ánægður að spila með Rooney og Ferdinand en fékk sér ekki kaffi með þeim

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rooney og Keane eftir leik gegn AC Milan í Meisatradeildinni.
Rooney og Keane eftir leik gegn AC Milan í Meisatradeildinni. vísir/getty

Roy Keane, fyrrum leikmaður Manchester United, segir að hann hafi ekki náð að tengja við Wayne Rooney og Rio Ferdinand á tíma sínum hjá United.

Keane er ekki þekktur fyrir og verður líklega aldrei þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum. Fyrrum fyrirliðinn segir að hann hafi ekki saknað Rooney og Rio er hann yfirgaf félagið árið 2005.

„Ég fattaði ekki Wayne eða Rio. Ég skildi ekki brandarana þeirra og hvað þeir stóðu fyrir. Þetta er líklega eitthvað persónulegt,“ sagði Keane við The Football Show á Sky Sports.

„Leikurinn hafði breyst og ég hafði aðlagast honum en undir lokin hjá United þá fattaði ég ekki alveg þá leikmenn sem voru að koma upp. Persónulega séð voru þeir ekki fyrir mig.“

„Augljóslega voru Rooney og Rio góðir leikmenn og ég var ánægður að spila með þeim en varðandi brandara og fá mér kaffi með þeim? Nei. Gleymdu því.“

Keane gekk í raðir Man. United árið 1993 og lék 480 leiki undir stjórn Sir Alex Ferguson áður en hann færði sig yfir til Skotlands og endaði ferilinn með skosku meisturunum í Celtic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×