Innlent

Lítið um hefðbundin helgarverkefni lögreglu sökum samkomubanns

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ljóst er að verkefni lögreglunnar verða talsvert frábrugðin því sem venjulegt má teljast á meðan samkomubannið varir.
Ljóst er að verkefni lögreglunnar verða talsvert frábrugðin því sem venjulegt má teljast á meðan samkomubannið varir. Vísir/Vilhelm

Lítið var um „hefðbundin“ helgarverkefni lögreglu í gær, en þau felast alla jafna í því að hafa afskipti af drukknum einstaklingum, bregðast við útköllum vegna ofbeldisbrota eða stöðva fólk sem grunað er um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu og segir að þetta megi rekja til samkomubannsins sem nú er á, og heimilar ekki að fleiri en 20 komi saman. Því er eðlilega lítið um skemmtanahald á öldurhúsum bæjarins.

Lögreglu barst þó tilkynning um hugsanlegt brot á samkomubanni á skemmtistað, en við athugun lögreglu á vettvangi reyndist ekki fótur fyrir því. Þá var umferð í lágmarki og því minna um ölvunar- og fíkniefnaakstur en yfirleitt á föstudagskvöldi.

Þá brást lögreglan við nokkrum tilkynningum um ofbeldi í heimahúsum, en þau mál voru „afgreidd samkvæmt hefðbundnu verklagi,“ eins og það er orðað í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Skömmu eftir miðnætti voru tveir menn handteknir í fyrirtæki við Nýbýlaveg grunaðir um innbrot, vörslu fíkniefna og vopnalagabrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×