Alls hafa nú 802 greinst með kórónuveiruna hér á landi. Hefur smitum því fjölgað um 65 síðastliðinn sólarhring þar sem staðfest smit klukkan 13 í gær voru alls 737. Þetta kemur fram á upplýsingasíðunni covid.is.
Tæplega tíu þúsund manns eru nú í sóttkví en um 2.400 manns hafa lokið sóttkví. Þá hafa um 12.600 sýni verið tekin.
Af þeim 802 sem hafa smitast af veirunni eru nú 734 í einangrun sem þýðir að 68 manns er batnað.
Líkt og undanfarnar vikur verður upplýsingafundur almannavarna og landlæknis í beinni útsendingu hér á Vísi og hefst fundurinn klukkan 14:03.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir munu fara yfir stöðu mála með tilliti til COVID-19 hér á landi.
Með þeim verður Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands. Hann mun, ásamt Þórólfi og Víði, ræða reiknilíkan sem tölfræðingar og vísindamenn við HÍ hafa þróað vegna faraldurs COVID-19 hér á landi.
Fréttin hefur verið uppfærð.