Tyrkneskir saksóknarar hafa ákært tuttugu Sáda vegna morðsins á sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi í október árið 2018. Enginn sakborningana er í Tyrklandi og yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa réttað yfir ellefu þeirra vegna morðsins.
Átján sádi-arabískir ríkisborgarar eru ákærðir fyrir morð að yfirlögðu ráði og tveir fyrir að „hvetja til“ morðs, að sögn DHA-frétastofunnar tyrknesku. Frekari upplýsingar um ákærurnar liggja ekki fyrir.
Bandaríska leyniþjónustan telur að Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, hafi skipað fyrir um morðið á Khashoggi. Hann bjó í Bandaríkjunum í sjálfskipaðri útlegð og skrifaði pistla fyrir Washington Post sem voru gagnrýnir á stjórnvöld í heimalandi hans.
Khashoggi var myrtur og lík hans bútað niður þegar hann leitaði til ræðisskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl til að sækja skjöl svo að hann gæti gift sig í október árið 2018. Lík hans hefur aldrei fundist.
Sjá einnig: Fimm dæmdir til dauða vegna morðsins á Jamal Khashoggi
Stjórnvöld í Sádi-Arabíu þóttust lengi framan af ekki vita um afdrif Khashoggi en viðurkenndu um síðir að hann hefði látið lífið á ræðisskrifstofunni. Hluti af fimmtán manna teymi sem var sent til Istanbúl var dregið fyrir dóm í Sádi-Arabíu vegna dauða Khashoggi. Saksóknarar þar fullyrtu að morðið hefði verið að þeirra eigin frumkvæði. Fimm þeirra sem voru ákærðir voru dæmdir til dauða í desember.
Niðurstöður rannsakanda Sameinuðu þjóðanna benda til þess að í teyminu hafi verið réttarmeinafræðingur, leyniþjónustumenn, liðsmenn öryggissveita og einstaklingar sem unnu fyrir skrifstofu Salman krónprins. Morðið á Khashoggi hafi verið aftaka „utan dóms og laga“.