Erlent

Hvergi fleiri látist vegna veirunnar en á Ítalíu

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Frá Cremona á Ítalíu. Fleiri hafa nú látist þar í landi heldur en í Kína, hvar áhrifa kórónuveirunnar fór fyrst að gæta.
Frá Cremona á Ítalíu. Fleiri hafa nú látist þar í landi heldur en í Kína, hvar áhrifa kórónuveirunnar fór fyrst að gæta. Vísir/Getty

Um 320 þúsund manns hafa nú greinst með kórónuveiruna um allan heim en hún breiðist hratt út. Stjórnvöld hafa víða hert aðgerðir til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar. Það hafa Ítalir meðal annars gert en hvergi hafa jafn margir látið lífið í faraldrinum og þar eða fimm þúsund manns.

Ítalir hafa síðustu vikur reynt allt til að berjast gegn útbreiðslu kórónuveirunnar þar í landi en vel yfir fimmtíu þúsund Ítalir hafa nú greinst með kórónuveiruna. Fullt er út úr dyrum á mörgum sjúkrahúsum og heilbrigðisstarfsfólk er hreinlega að bugast á ástandinu.

„Þetta er hörmung, þetta er flóðbylgja og við erum hér tólf klukkustundir á dag. Við förum aðeins heim í nokkra klukkutíma og eru svo mætt aftur til vinnu, “ segir Leonor Tamayo, gjörgæslulæknir á Cremona-sjúkrahúsinu á Ítalíu.

Í gær létu átta hundruð manns lífið á Ítalíu með COVID-19. Spítalarnir eru því ekki aðeins yfirfullir af mikið veikum sjúklingum heldur einnig líkkistum. Ekki er lengur pláss í líkhúsum margra spítala og hefur kistum því verið komið fyrir í kapellum þeirra og í á öðrum stöðum þar sem finna má pláss.

Fáir eru á ferli á götum Ítalíu og þegar fólk þarf að kaupa nauðsynjavörur er víða fylgst með því að það fari ekki inn í matvöruverslanir nema að geta sýnt fram á að það sé ekki með hita.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×