Utanríkisráðherra hvetur Íslendinga erlendis til að snúa heim strax vegna þess að um næstu mánaðamót gætu allar flugleiðir hafa lokast vegna kórónuveirunnar. Þetta kemur fram í Facebook-færslu ráðherra sem birt var í gærmorgun.
„Nú þegar eru flugsamgöngur afar takmarkaðar. Þeir Íslendingar sem hyggja á heimkomu þurfa að snúa heim strax, skrá sig í grunn borgaraþjónustunnar og hafa beint samband ef þeir verða strandaglópar. Um mánaðamótin gætu allar flugleiðir hafa lokast,“ skrifar Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á Facebook-síðu sinni.
Þá kvað hann símafund með utanríkisráðherrum hinna Norðurlanda sem haldinn var á föstudag hafa gengið vel. Þar hafi verið lýst yfir sérstakri ánægju með samkomulag sem tekist hefði milli ríkjanna um enn frekara samstarf um borgaraþjónustu til að koma þeim Norðurlandabúum til aðstoðar sem eiga á hættu að verða strandaglópar.
Eins og áður segir hvetur ráðherra Íslendinga erlendis til að hafa samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins. Mikið hafi mætt á henni undanfarnar vikur.
„Borgaraþjónustan veitir Íslendingum vernd og aðstoð í neyðartilfellum erlendis og er ein af grunnstoðum utanríkisþjónustunnar. Frá því um síðustu helgi hefur borgaraþjónusta utanríkisþjónustunnar svarað um 2 þúsund erindum og miðlað upplýsingum til rúmlega 9 þúsund manns sem skráðir eru í gagnagrunn borgaraþjónustunnar sem fór í loftið 25. febrúar vegna COVID-19.“