Erlent

Japanskt lyf sagt gefa góða raun sem með­ferð við kórónu­veirunni

Eiður Þór Árnason skrifar
Lyfið er framleitt af japanska lyfjaframleiðandanum Toyama Chemical.
Lyfið er framleitt af japanska lyfjaframleiðandanum Toyama Chemical. Vísir/EPA

Kínversk heilbrigðisyfirvöld greina frá því að lyf sem sé notað í Japan til meðferðar á nýlegum stofnum inflúensu líti út fyrir að vera áhrifaríkt við kórónuveirunni.

Zhang Xinmin, embættismaður hjá kínverska vísinda- og tækniráðuneytinu, sagði í samtali við japanskan miðil að niðurstöður klínískra rannsókna í borgunum Wuhan og Shenzen gefi ástæðu til bjartsýni.

Þeir 340 sjúklingar sem tóku þátt og fengu lyfið Favipiravir virtust vera lausir við veiruna að jafnaði fjórum dögum eftir að þeir sýktust af henni. Til samanburðar tók það að jafnaði ellefu daga hjá samanburðarhópnum sem fékk ekki lyfið.

Þá eru röntgenmyndir sagðar benda til þess að þeir sjúklingar sem fengu lyfið hafi sýnt meiri bata á lungum en samanburðarhópurinn.

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landsspítalans, segir spítalann vita af lyfinu. Það sé hins vegar ekki komið leyfi fyrir því í Evrópu. Það verði íhugað að nota lyfið ef leyfi fáist til þess.

Japanski miðillinn Mainichi Shimbun hefur þó eftir heimildarmanni í japanska heilbrigðisráðuneytinu að lyfið, sem gengur einnig undir nafninu Avigan, virðist ekki vera eins áhrifaríkt á fólk sem sé komið með alvarlegri einkenni.

„Við höfum gefið sjötíu til áttatíu sjúklingum Avigan en það virðist ekki vera eins áhrifaríkt þegar veiran er búin að fjölga sér.“

Rannsóknir eru einungis á byrjunarstigi en ljóst er að lyfið þyrfti að fara í nýtt leyfisferli hjá yfirvöldum áður en það verður notað almennt við kórónuveirunni í ljósi þess að það er upphaflega ætlað sem lyf við flensu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×