Í tilkynningu á vef Lyfjastofnunar segir að markaðsleyfið byggi á markaðsleyfi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, en leyfisveiting hennar byggir á meðmælum Lyfjastofnunar Evrópu. Bæði meðmælin og markaðsleyfi framkvæmdastjórnarnarinnar birtust fyrr í dag.
„Hér er um stóran áfanga að ræða, þar sem nú verður hægt að hefja bólusetningar hér á landi með umræddu bóluefni um leið og það verður tiltækt,“ segir á vef Lyfjastofnunar.
Yfirlestur á íslenskum þýðingum fylgiseðils og samantektar á eiginleikum lyfs stendur yfir hjá Lyfjastofnun og verða þær birtar um leið og þær eru endanlegar. Ráðgert er að það verði á morgun.
Bóluefninu er sprautað í handlegg tvisvar með minnst 21 dags millibili. Ísland fær tíu þúsund skammta nú í desember, sem duga fyrir um fimm þúsund manns.
Heilbrigðisstarfsfólk í fremstu framlínu og íbúar á öldrunarstofnunum fá fyrstu bólusetningu. Alls hefur Ísland tryggt sér skammta af bóluefninu fyrir 85 þúsund manns, samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu.