Sigurjón Hendriksson varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins segir í samtali við Vísi að útkall hafi borist vegna veikinda í Hörpu. Sjúkrabíllinn sem fyrst var sendur í útkallið hafi þó reynst of hár til að komast inn í bílakjallara tónlistarhússins.
Sigurjón segir að lögregla hafi mætt á staðinn á undan sjúkraflutningamönnum og minni bíll verið sendur í Hörpu þegar fyrir lá hvar í húsinu hefði verið óskað eftir flutningi.

Stóri bíllinn er svokallaður kassabíll sem slökkviliðið er með til prufu, að sögn Sigurjóns. Vinnuaðstaðan í slíkum bílum sé gríðarlega góð og þeir því gjarnan notaðir til sjúkraflutninga.
Sigurjón telur að allir nýju sjúkrabílar slökkviliðisins, sem afhentir voru í ágúst í fyrra og eru af gerðinni Mercedes Benz Sprinter, komist inn í bílageymslur.
„En það er ein og ein sem er lægri en standardinn er,“ segir Sigurjón.