Körfubolti

Sektaður um þrjár milljónir fyrir að neita að tala við fjölmiðla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyrie Irving er vanur að koma sér í vandræði með furðulegum yfirlýsingum í viðtölum.
Kyrie Irving er vanur að koma sér í vandræði með furðulegum yfirlýsingum í viðtölum. Getty/Mike Stobe

Kyrie Irving og félag hans Brooklyn Nets fengu bæði sekt frá NBA deildinni af því að leikmaðurinn hefur ekki sinnt fjölmiðlaskyldum sínum.

NBA sektaði Kyrie Irving og félagið um 25 þúsund dollara eða meira en 3,1 milljón íslenskra króna.

Kyrie Irving hefur margoft neitað að tala við fjölmiðla í þessari viku og það er ekki liðið hjá NBA deildinni.

NBA setur þær kröfur á leikmenn sína að þeir bjóði fjölmiðlamönnum upp á viðtöl fyrir og eftir æfingar og leiki.

Vanalega er sérstakur fjölmiðladagur þar sem hægt er að tala við alla leikmenn hvers liðs. Kórónuveiran hefur flækt málin því félögin þurfa nú að fylgja hörðum sóttvarnarreglum.

Það breytir ekki því að fjölmiðlar hafa sóst eftir viðtali við Kyrie Irving án árangurs.

Æfingabúðir Brooklyn Nets hófust 1. desember síðastliðinn og það eina sem komið hefur frá Kyrie Irving er ein stutt yfirlýsing.

Þar sakar hann óbeint fjölmiðla um að hafa rangt eftir sér og að hann sé bara einbeita sér að því að æfa vel og hjálpa félagi sínu að vinna titla. Þetta var þó ekki nóg fyrir NBA sem sektaði Kyrie Irving.

Þrjár milljónir króna er ekki mikill peningur fyrir Kyrie Irving enda aðeins eitt prósent af árslaunum hans. Hann gerði fjögurra ára samning við Brooklyn Nets í fyrra sem færir honum 141 milljónir Bandaríkjadala eða tæpa átján milljarða íslenskra króna.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×