Erlent

Virknin 70% en skammtastærðinni mögulega breytt

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, heimsækir höfuðstöðvar AstraZeneca í Sydney.
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, heimsækir höfuðstöðvar AstraZeneca í Sydney. epa/Nick Moir

Bóluefni AstraZeneca og vísindamanna við Oxford-háskóla hefur 70% virkni ef horft er til heildarniðurstaða prófana. Virknin reyndist 90% hjá litlum hluta þátttakenda sem fékk óvart ranga skammtastærð en hjá meirihlutanum reyndist virknin 62%.

Frá þessu er greint í heilbrigðisvísindatímaritinu Lancet en niðurstöðurnar setja eftirlitsaðila í ákveðna klemmu, þar sem það verður undir þeim komið að mæla fyrir um skammtastærð.

Forsvarsmenn Oxford-teymisins og AstraZeneca hafa sótt um markaðsleyfi á þeim forsendum að virknin sé 70% en ákvörðunarvaldið um notkun liggur hjá lyfjaeftirlitsaðilum í Bretlandi, Evrópu og Bandaríkjunum.

Samkvæmt frétt Guardian um málið kann að fara svo að bóluefnið verði samþykkt á ólíkum forsendum á hverju svæði fyrir sig.

Miklar vonir hafa verið bundnar við bóluefni Oxford AstraZeneca, þar sem það er ódýrt og auðvelt í framleiðslu og flutningum. Bóluefnið er meðal þeirra efna sem eru undir Covax; áætlun Sameinuðu þjóðanna um að dreifa bóluefni gegn Covid-19 til allra þjóða heims.

Pascal Soriot, framkvæmdastjóri AstraZeneca, ítrekaði í dag mikilvægi þess að koma nokkrum bóluefnum á markað, þar sem AstraZeneca, Pfizer og Moderna myndu ekki ná að anna eftirspurn.

Bretar byggja væntingar sínar á AstraZeneca bóluefninu og hafa tryggt sér 100 milljón skammta og eru fjórar milljónir skammta þegar til í landinu.

Gögnin sem birtust í Lancet byggja á tilraunum á 11.636 einstaklingum í Bretlandi og Brasilíu. 

2.741 tilheyrði hópnum sem fékk hálfan skammt í fyrri gjöf en helmingur þeirra fékk lyfleysu. Virknin í þeim hópi sem fékk bóluefnið reyndist 90% en enn er ekki vitað hvers vegna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×