Ekki hefur barnaverndarnefndum borist fleiri tilkynningar á einum mánuði það sem af er ári en nú í október eða alls 1.336 talsins. Í mánuðinum vörðuðu tilkynningar fleiri börn en áður eða 1.038 börn.
Þetta kemur fram í greiningu á vegum Barnaverndarstofu.
„Þessar tölur eru áhyggjuefni en ekki óvæntar. Við höfum áður komið inn á að það megi búast við því að barnaverndarmálum fjölgi þegar kemur upp ástand eins og nú er í íslensku samfélagi,“ sagði Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu og vísar hún í faraldur kórónuveirunnar.
559 tilkynningar um vanrækslu barna
Tilkynningum um ofbeldi fjölgar og bárust fleiri tilkynningar á fyrstu 10 mánuðum ársins vegna ofbeldis en bárust allt árið 2016, 2017, 2018 og 2019.
Alls bárust 72 tilkynningar þar sem barn var talið í yfirvofandi hættu og 559 tilkynningar um vanrækslu barna.
„Það sem við vitum er að það tekur oft tíma fyrir svona hluti að raungerast hjá barnaverndinni. Ef vanræksla hefst á vormánuðum þá eru tilkynningar komnar inn til barnaverndarnefndar kannski um haustið. Þannig ég held að við megum búast við áframhaldandi miklu álagi. Ég veit svo sem ekki hvort þeim muni fjölga umfram það sem er að gera núna en ég held að við séum að horfa fram á mikið langhlaup í stuðningi við fjölskyldur á næstu mánuðum og árum sem afleiðingar af þessu ástandi,“ sagði Heiða.