Rúnar Alex hélt marki Arsenal aftur hreinu í öðrum leik sínum fyrir félagið, í 3-0 sigrinum gegn Molde í Noregi í gær.
Báðir leikir Rúnars Alex fyrir enska stórliðið hafa komið í Evrópudeildinni og í bæði skiptin hefur Arsenal unnið 3-0. Fyrri leikurinn var við írska liðið Dundalk á Emirates-vellinum í Lundúnum.
Líkt og gegn Dundalk átti Rúnar Alex frekar náðugan dag í Noregi í gær en í fyrri hálfleiknum átti Molde þó í fullu tré við Arsenal.
Minnstu munaði að Molde kæmist yfir á 15. mínútu þegar Sheriff Sinyan náði til boltans í algjöru dauðafæri fyrir opnu marki, en hann skaut boltanum óvart beint á Rúnar Alex. Hann náði að slá boltann til Shkodran Mustafi sem hreinsaði í burtu.
Að öðru leyti reyndi lítið á íslenska landsliðsmanninn en hér að neðan má sjá hluta af því sem hann gerði á Aker-vellinum í gær.