Erlent

Vilja banna meint „ástarjíhad“ á Indlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Múslimakonur við bænir í indverska hluta Kasmírhéraðs. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Múslimakonur við bænir í indverska hluta Kasmírhéraðs. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. Vísir/EPA

Fjórar ríkisstjórnir á Indlandi hafa heitið því að samþykkja ný lög til þess að gera fólki af ólíkum trúarbrögðum erfiðara að gifta sig. Aðgerðirnar eru sagðar byggjast á stoðlausri samsæriskenningu um að karlar af íslamstrú reyni nú meðvitað að giftast konum af hindúatrú til þess að snúa þeim til íslams.

Fjórar ríkisstjórnir á Indlandi hafa heitið því að samþykkja ný lög til þess að gera fólki af ólíkum trúarbrögðum erfiðara að gifta sig. Aðgerðirnar eru sagðar byggjast á stoðlausri samsæriskenningu um að karlar af íslamstrú reyni nú meðvitað að giftast konum af hindúatrú til þess að snúa þeim til íslams.

Trúskipti við giftingu verða nú refsiverð að viðlagðri eins til tíu ára fangelsisvist í Uttar Pradesh, þar sem fleiri en 200 milljónir manna, búa eftir að ríkisstjórnin þar samþykkt ný lög á þriðjudag, að sögn Washington Post. Með lögunum yrðu hjónabönd fólks þar sem kona skipti um trú gagngert til að giftast einnig ógilt. Ríkisstjóri á enn eftir að staðfesta lögin með undirskrift sinni.

Róttækir hindúar eru að undanförnu sagðir ala á samsæriskenningu um það sem þeir kalla „ástarjíhad“ þar sem múslimakarla giftast hindúakonum. Yogi Adityanath, róttækur hindúamunkur, hótaði þeim sem slíkt gerðu dauða.

Ásakanir af þessu tagi eru sagðar orðnar algengar innan raða Bharatiya Janata, stjórnarflokks Indlands, en þær þrifust áður aðeins á jaðrinum á meðal þjóðernissinnaðra hindúa. Flokkurinn reynir nú að setja lög til að glíma við meint vandamálið í nokkrum ríkjum.

Hugmyndirnar um að múslimar reyni að snúa konum frá hindúatrú með því að giftast þeim eru stoðlausar að sögn sérfræðinga. Ráðherra í landsstjórninni sagði þinginu fyrr á þessu ári að ekkert slíkt tilfelli hefði verið skráð hjá alríkisyfirvöld og að hugtakið „ástarjíhad“ væri ekki til í indverskum lagabókstaf. Ellefu tilfelli um að konur hefðu skipt um trúarbrögð við giftingu fundust í Kerala-ríki árið 2018 en ekkert bendi til þess að það hefðu þær gert nauðugar.

Ekki liggja fyrir tölur um hversu mörg pör á Indlandi eru af ólíkum trúarbrögðum. Rannsókn sem byggðist á gögnum frá árinu 2005 benti til þess að um 2% hjóna aðhylltust ekki sömu trúarbrögðin.

Pör af ólíkri trúa hafa lengi sætt áreitni og jafnvel líflátshótunum á Indlandi, ekki síst frá öfgasinnuðum hindúum. Afgerandi meirihluti Indverja eru hindúar en múslimar eru fjölmennasti minnihlutahópurinn í landinu.

Spenna á milli ólíkra trúarhópa hefur farið vaxandi á Indlandi undanfarin misseri. Ríkisstjórn Narendra Modi forsætisráðherra hefur verið sökuð um að ala á tortryggni í garð múslima og að beita þá misrétti. Mikil mótmælaalda gekk yfir Indland vegna laga stjórnar Modi um að veita öllum þeim sem komu ólöglega til Indlands frá nágrannalöndum þar sem múslimar eru í meirihluta ríkisborgararétt nema múslimum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×