Erlent

Ron Klain verður starfsmannastjóri Hvíta hússins

Telma Tómasson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Ron Klain sést hér með Joe Biden. Þeir eru nánir samstarfsmenn til fjölda ára.
Ron Klain sést hér með Joe Biden. Þeir eru nánir samstarfsmenn til fjölda ára. Getty/Mark Wilson

Joe Biden verðandi forseti Bandaríkjanna er byrjaður að ráða í helstu lykilstöður í Hvíta húsinu. Í gær var tilkynnt að Ron Klain yrði starfsmannastjóri Hvíta hússins eftir forsetaskiptin í janúar.

Klain er gríðarlega reynslumikill í stjórnsýslunni og hefur verið stoð og stytta Bidens í áratugi, bæði í öldungadeild Bandaríkjaþings og þegar hann var varaforseti.

Þá fór Klain fyrir ebóluteymi Hvíta hússins í forsetatíð Baracks Obama þegar lítill faraldur ebólu braust út árið 2014. Klain var einnig nánasti aðstoðarmaður Als Gore, þáverandi varaforseta.

Starfsmannastjóri Hvíta hússins er afar valdamikill. Hann sér meðal annars um dagskrá forsetans, er einn hans nánasti ráðgjafi og trúnaðarmaður. Starfsmannastjórinn er pólitískt skipaður og þarf því ekki samþykki þingsins.

Klain hefur verið virkur í starfi Demókrataflokksins í tugi ára og tók meðal annars þátt í báðum kosningabaráttum Bills Clinton á tíunda áratugnum.

Auk þess hefur Klain þjálfað fjölmarga forsetaframbjóðendur Demókrata fyrir kappræður, þar á meðal fyrrnefnda Clinton, Gore og Obama sem og Hillary Clinton, John Kerry og auðvitað Biden sjálfan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×