Handbolti

Þarf að hlusta vel og spyrja mikið

Sindri Sverrisson skrifar
Hákon Daði Styrmisson er í landsliðinu sem mætir Litáen í kvöld.
Hákon Daði Styrmisson er í landsliðinu sem mætir Litáen í kvöld. stöð 2

„Ég er ótrúlega stoltur,“ segir Eyjamaðurinn Hákon Daði Styrmisson sem verður með íslenska landsliðinu í Laugardalshöll í kvöld þegar undankeppni EM í handbolta hefst.

Hákon Daði var kallaður inn í íslenska hópinn fyrir leikinn við Litáen í kvöld eftir að Oddur Gretarsson dró sig úr hópnum. Bjarki Már Elísson varð einnig að draga sig úr hópnum og því eru Hákon Daði og Orri Freyr Þorkelsson úr Haukum vinstri hornamenn landsliðsins í kvöld.

Undirbúningurinn hefur verið afar skammur en Hákon Daði, sem hefur staðið sig afar vel í Olís-deildinni síðustu ár, með ÍBV og Haukum, er fyrst og fremst ánægður með að fá tækifæri í landsliðinu.

„Ég er búinn að bíða lengi, og þegar Gunni [Gunnar Magnússon, aðstoðarlandsliðsþjálfari] hringdi þá var ég bara ótrúlega stoltur að hann skyldi hugsa til mín og að ég komi til greina,“ segir Hákon, sem hefur lagt mikið á sig til að komast í landsliðið:

„Mér finnst það já. Þetta hefur verið löng leið og það leggja allir mikið á sig, en maður verður bara að halda áfram,“ segir Hákon við Guðjón Guðmundsson, en innslagið má sjá hér að neðan. Aðspurður hvort hann reikni með að spila mikið í kvöld segir Hákon:

„Ég ætla að reyna að skila af mér góðu dagsverki, hvort sem það verður á bekknum eða inni á vellinum.“ 

Tvær æfingar til að koma sér inn í hlutina

Hann kann vel við pressuna sem fylgir því að vera kominn í landsliðið sem íslenska þjóðin hefur fylgst svo náið með í gegnum árin:

„Að sjálfsögðu, og maður þarf að fagna því. Ef að það er engin pressa þá hefur þetta enga þýðingu, svo það er gott að það sé pressa.“

Eins og fyrr segir er sáralítill tími til undirbúnings, meðal annars vegna kórónuveirufaraldursins: „Tvær æfingar. Menn þurfa svo að meta það hvort það sé mikill undirbúningur eða ekki. En það er alla vega fínt að fá eitthvað,“ segir Hákon, einn af sárafáum hérlendum íþróttamönnum sem geta æft íþróttir þessa dagana. En hvernig gengur að koma sér inn í leikkerfin sem íslenska landsliðið notar og annað? Er þetta bara eins og hjá ÍBV?

„Þetta er svipað dæmi… Nei, maður þarf að vera fljótur að pikka hlutina upp, hlusta vel og fylgjast vel með, og spyrja mikið.“

Klippa: Hákon Daði í landsliðinu gegn Litáen í kvöld

Tengdar fréttir

Orri inn í stað Bjarka

Orri Már Þorkelsson, vinstri hornamaður Hauka, hefur verið kallaður inn í A-landsliðshóp Íslands fyrir leikinn gegn Litháen í komandi viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×