Fram situr eftir með sárt ennið í Lengjudeild karla eftir að KSÍ tilkynnti í dag að allt mótahald yrði blásið af vegna kórónuveirunnar.
Þegar allt var sett á ís fyrr í þessum mánuði voru Fram í 3. sæti deildarinnar, með jafnmörg stig og Leiknir í öðru sætinu, en með lakari markahlutfall.
Eftir ákvörðun KSÍ í dag sitja Framarar þar af leiðandi eftir í Lengjudeildinni og það er ekki mikil gleði í Safamýrinni ef marka má Facebook-síðu félagsins.
„Á þessum sorgardegi í sögu fótboltans á Íslandi reynum við Framarar að sjá eitthvað jákvætt.“
Svona hefst færslan en í henni er tilkynnt um að þrír leikmenn félagsins hefðu skrifað undir nýjan samning við félagið.
„Í dag var gengið frá endurnýjun á samningi við tvo leikmenn meistaraflokks karla og nýjum samningi við ungan og efnilegan leikmann.“
Orri Gunnarsson, Matthías Kroknes Jóhannsson og Benjamín Jónsson hafa framlengt samning sinn við félagið. Samningur Orra og Matthíasar er til tveggja ára en Benjamín til þriggja.