Innlent

Veðurviðvaranir um nær allt land

Eiður Þór Árnason skrifar
Ekkert ferðaveður verður víðast hvar á landinu.
Ekkert ferðaveður verður víðast hvar á landinu. Veðurstofan

Veðurstofan hefur gefið út viðvörun vegna slæms veðurs í öllum landshlutum nema á höfuðborgarsvæðinu. Víða verður ekkert ferðaveður.

Appelsínugul veðurviðvörun verður í gildi fyrir Vestfirði fram á þriðjudag en þar má búast við norðaustan stormi eða roki, 20 til 25 metra á sekúndu, með talsverðri snjókomu.

Einnig hefur snjóflóðavakt Veðurstofunnar varað við snjóflóðahættu á norðan- og sunnanverðum Vestfjörðum frá klukkan 21:30 í kvöld.

Þá verður gul viðvörun á morgun á Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði, Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum, Suðausturlandi og miðhálendi og sums staðar fram á þriðjudag.

Nú gengur í suðaustan og austan hvassviðri eða storm, fyrst suðvestantil. Snjókoma eða slydda, en slydda eða rigning sunnantil og talsverð úrkoma suðaustan- og austantil á landinu, segir í veðurspá.

Dregur úr vindi og úrkomu þegar líður á morguninn, fyrst suðvestantil, en áfram norðaustan hvassviðri og ofankoma á Vestfjörðum, en stormur eða rok og aukin ofankoma um kvöldið.

Suðlæg eða breytileg átt 5-13 í öðrum landshlutum og skúrir eða él, en þurrt að mestu norðaustanlands. Frost 0 til 6 stig fyrir norðan, en hiti að 5 stigum sunnanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×