Skipverjarnir 25 á Júlíusi Geirmundssyni hafa fengið leyfi til að yfirgefa skipið og munu allir nema einn gera það í dag. Níu skipverjar hafa jafnað sig af kórónuveirunni og eru með mótefni en þrettán eru smitaðir og þurfa að vera í einangrun áfram, samkvæmt niðurstöðum sýnatöku.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða nú síðdegis. Júlíus Geirmundsson kom til hafnar á Ísafirði á sunnudag til að taka olíu. Skipverjar fóru þá í sýnatöku vegna mögulegs kórónuveirusmits. Ekki var beðið eftir niðurstöðum úr sýnatökunni heldur haldið aftur á haf út. Þegar í ljós kom að stór hluti hópsins væri með veiruna var siglt til baka og komið til hafnar á Ísafirði í hádegi í gær.
Skipverjarnir hafa dvalið í skipinu síðan. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að ættingjum skipverja hafi ekki staðið á sama um þá ráðstöfun.
Umdæmislæknir sóttvarna hefur nú gefið leyfi fyrir því að skipverjarnir yfirgefi skipið en með skilyrðum, að því er segir í tilkynningu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.
Niðurstöður sýnatöku frá í gær bárust í hádeginu og þar kom í ljós að níu skipverjar hafi jafnað sig á veikindunum, eru með mótefni og því frjálsir ferða sinna. Þrettán eru smitaðir og þurfa að vera í einangrun áfram. Þrír eru hvorki smitaðir né með mótefni og þurfa því að sæta sóttkví.
Fimm skipverjanna fara í farsóttarhús í nágrenni Ísafjarðar sem sett verður upp af þessu tilefni. Aðrir fara til síns heima eða í íbúðir á eigin vegum víða um land. Einn verður eftir um borð í skipinu.
„Vettvangsstjórn og aðgerðastjórn hefur verið virkjuð við uppsetningu farsóttahússins, flutning á fólki og annað sem tengist málinu. Samráð hefur verið haft við sóttvarnalækni, Sjúkratryggingar Íslands, Rauða kross Íslands og fleiri,“ segir í tilkynningu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.
Framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar hf, sem gerir út Júlíus Geirmundsson, vildi ekki svara því í samtali við Vísi í dag hvers vegna ekki var farið í land þegar fór að bera á veikindum meðal skipverja.